Halló OLS samfélag!
Ísland er stórkostlegt land með stórbrotinni náttúru, einstökum menningararfi og líflegu borgarlífi. Hins vegar er ekkert leyndarmál að það getur verið dýrt að búa hér. Fyrir skiptinema getur það verið áskorun að halda kostnaði niðri og njóta alls sem Ísland hefur upp á að bjóða. En ekki hafa áhyggjur—það eru margir möguleikar til að lifa hagkvæmu lífi á Íslandi. Í þessari bloggfærslu deilum við ráðum sem hjálpa þér að spara peninga.
1. Verslaðu skynsamlega
Matvörur geta verið einn stærsti kostnaðarliðurinn á Íslandi, en með því að velja réttar verslanir geturðu sparað mikið.
• Bónus, Krónan & Prís eru bestu kostirnir fyrir hagkvæm innkaup. Þessar verslanir bjóða upp á fjölbreytt vöruúrval á betra verði en t.d. Hagkaup eða 10-11.
• Fylgstu með tilboðum og afsláttarrekkum, sérstaklega í ferskvörudeildinni og bakaríinu.
2. Nýttu þér ókeypis eða ódýra afþreyingu
Ísland er fullt af náttúruundrum sem kosta ekkert að njóta!
• Kannaðu gönguleiðir eins og Esjuna eða Reykjadalinn fyrir ókeypis útivistarævintýri.
• Farðu í almennings sundlaugar, sem eru tiltölulega ódýrar (yfirleitt um 1.000–1.500 ISK) og frábær leið til að slaka á.
• Skoðaðu ókeypis safn eða viðburði á menningarhátíðum eins og Menningarnótt.
3. Eldaðu heima
Að borða úti á Íslandi getur verið dýrt, svo það er mikill sparnaður að elda heima.
• Skipuleggðu máltíðirnar þínar og útbúðu nesti til að forðast að kaupa dýran skyndibita.
• Prófaðu íslenskt hráefni, eins og skyr.
• Fjárfestu í fjölnota vatnsbrúsa. Ísland er með eitt hreinasta kranavatn í heimi, svo það er óþarfi að eyða pening í vatn í plastflöskum.
4. Nýttu almenningssamgöngur
Þótt bílaleiga sé þægileg getur hún verið dýr. Reyndu frekar að nýta almenningssamgöngur fyrir daglegar ferðir.
• Strætisvagnar í Reykjavík, Strætó, eru skilvirkir og tiltölulega ódýrir, sérstaklega ef þú kaupir mánaðar- eða árskort.
5. Finndu góð kaup á nytjamörkuðum
Á Íslandi er sterk menning í kringum sjálfbærni, sem gerir nytjamarkaði að frábærum kostum.
• Kíktu á verslanir eins og Rauða krossinn eða Kolaportið, vinsælan helgarskiptimarkað í Reykjavík.
• Fyrir húsgögn og heimilisvörur geturðu skoðað Facebook Marketplace hópa eða notað síður eins og Bland.is.
6. Nýttu nemendaafslætti
Ef þú ert nemandi skaltu nýta þér alla þá afslætti sem eru í boði:
• Margir verslanir, söfn og samgöngur bjóða upp á nemendaafslætti—sýndu einfaldlega nemendaskírteinið þitt.
• Hugleiddu að kaupa nemendakort fyrir sundlaugar eða líkamsræktarstöðvar.
7. Njóttu ókeypis íslenskrar afþreyingar
Afþreying þarf ekki að kosta mikið!
• Horfðu á norðurljósin yfir vetrartímann—það er ókeypis og stórkostlegt.
• Taktu þátt í samfélagsviðburðum eða skiptinemahópum til að hitta fólk án mikils tilkostnaðar.
• Skoðaðu götulistaverk í Reykjavík eða farðu í sjálfsleiðsögn um borgina.
Það þarf ekki að tæma budduna til að búa á Íslandi. Með því að taka skynsamar ákvarðanir, skipuleggja fram í tímann og nýta náttúruna þá geturðu notið ótrúlegrar upplifunar án þess að eyða of miklu.
Hefur þú einhver ráð til að lifa sparnaðarvænu lífi á Íslandi? Deildu þeim með samfélaginu—við viljum gjarnan heyra hugmyndirnar þínar!
Íris Líf, OLS Community Manager – Icelandic